Þingvangur hefur afhent Landssambandi Þroskahjálpar raðhús með 6 íbúðum og starfsmannaaðstöðu í Stuðlaskarði í Hafnarfirði. Húsið er timburhús á einni hæð, hver íbúð er 67 fermetrar og starfsmannaaðstaðan 20 fermetrar.
Þroskahjálp leggur mikla áherslu á að fatlað fólk geti notið þeirra mannréttinda sem eru fólgin í því að eiga sitt eigið heimili. Það var byggingarsjóður Þroskahjálpar sem lét byggja húsið en íbúarnir leigja íbúðir sínar. Íbúðakjarninn er rekinn með stuðningi frá Hafnarfjarðarbæ en rekstrarsamningur er við bæinn. Samningurinn á sér engin fordæmi því einstaklingarnir munu með viðeigandi aðstoð sjálfir sjá um skipulag og rekstur íbúðakjarnans. Íbúarnir sex eru vinir og voru að flytja úr foreldrahúsum í fyrsta sinn. Þingvangur óskar þeim innilega til hamingju.